Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samstarf skóla við smitrakningateymi og sóttvarnalækni

19.11.2021
Samstarf skóla við smitrakningateymi og sóttvarnalækni

Í fréttum undanfarið hefur verið fjallað um lögmæti þess að smitrakningateymi njóti aðstoðar skólastjórnenda við smitrakningu innan veggja skólanna vegna COVID-19 og því jafnvel verið haldið fram að engin lagaleg heimild sé fyrir því að skólastjórnendur skili nemendalistum til smitrakningateymis til að aðstoða við smitrakningu.

Í tilkynningu frá sóttvarnalækni 18. nóvember 2021 sem lesa má hér á vefnum covid.is og gerðar nokkrar athugasemdir við þessar fullyrðingar og lögmæti og fyrirkomulag þess verklags sem viðhaft er við smitrakningu í skólum útskýrt.  

Það helsta sem kemur fram í tilkynningu sóttvarnalæknis:

Í sóttvarnalögum nr. 19/1997 með seinni tíma breytingum er kveðið á um skyldu sóttvarnalæknis til að uppræta og koma veg fyrir alvarlega smitsjúkdóma eins og COVID-19. Í 4. mgr,  12. gr. laganna er kveðið á um rétt sóttvarnalæknis til aðgangs að gögnum til að gera faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits og eftir atvikum hefja smitrakningu. Í 5. gr. sóttvarnalaga er einnig kveðið á um að sóttvarnalækni er heimilt að fela tilteknum aðilum, ríkislögreglustjóra eða stofnunum að rekja smit þegar farsótt geisar og ber sóttvarnalæknir ábyrgð á smitrakningunni.

Í baráttunni við COVID-19 hefur smitrakning ásamt beiting úrræða eins og sóttkví og einangrun, gegnt lykilhlutverki. Smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis og almannavarna hefur verið falin smitrakning skv. ofangreindum ákvæðum sóttvarnalaga og hefur þannig rétt til að afla þeirra gagna sem lögin heimila.

Í núverandi bylgju faraldurs COVID-19 hafa smit í skólum spilað stórt hlutverk í útbreiðslu smita í samfélaginu og rakning innan skólanna verið þýðingarmikil. Til að rakningin skili árangri er samstarf við skólastjórnendur mikilvægt því einungis skólastjórnendur þekkja aðstæður og hafa aðgang að viðveru- og nemendalistum. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar þegar tekin er ákvörðun um sóttkví. Því má líta svo á að samstarf skólastjórnenda og rakningateymis falli undir nauðsynlega gagnaöflun skv. sóttvarnalögum fyrir sóttvarnalækni til að framfylgja sinni lagalegu skyldu.

Við rakningu smita í skólum eru foreldrum barna sendar upplýsingar og leiðbeiningar um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir sem í flestum tilfellum eru sendar af af skólastjórnendum f.h. rakningateymis. Þessi samvinna rakningateymis og skólastjórnenda er á engan hátt ígildi þess að ákvörðunin sé tekin af skólastjórnendum. Ábyrgðin liggur alltaf hjá smitrakningateyminu og sóttvarnalækni og formleg tilkynning berst þaðan.

Góður árangur Íslendinga til þessa í baráttunni við COVID-19 felst ekki hvað síst í þeirri góðu samvinnu sem sóttvarnayfirvöld hafa átt við skólastjórnendur. 

Til baka
English
Hafðu samband