Grænfáninn í sjöunda sinn og Grænfánatískusýning
Álftanesskóli fékk Grænfánann afhentan í sjöunda sinn þann 1. desember síðastliðinn á Kærleikunum. Í tilefni dagsins voru nemendur skólans með fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Nemendur í 6. og 7. bekk fluttu skemmtilegt trommuatriði í Íþróttamiðstöðinni og nemendur í 10. bekk voru kynnar og aðstoðarmenn á Grænfánatískusýningu 5. bekkja.
Tískusýningin er árlegt verkefni sem nemendur í 5. bekk vinna að með hjálp foreldra sinna. Verkefnið byggist á umhverfisvænni hugsun og því tilvalið að nota verðlaus efni þ.e. að endurnýta ónýtar/gamlar flíkur eða nota ýmislegt sem fellur til heima hjá öllum. Nemendur hanna búninga en foreldrar hjálpuðu þeim við búningagerðina. Í gegnum tíðina hafa stelpur sem strákar verið að sýna allskonar búninga og fylgihluti s.s. töskur, hatta, vesti, axlabönd, skartgripi, höfuðskraut og ýmislegt annað. Markmiðið með þessu verkefni er að efla tengsl milli heimilis og skóla og um leið að fá nemendur til að hugsa umhverfisvænt, styðja sjálfbærni sem og að efla sjálfstraust nemenda og framkomu þeirra á skemmtilegan hátt.
Tískusýningin var endurtekin á Jóla- og góðgerðadeginum þann 2. desember við frábærar viðtökur íbúa Álftaness og Garðabæjar.
Hér má sjá myndir og myndbönd frá Grænfánatískusýningu 5. bekkja.