Forvarnarvika í Álftanesskóla 10. til 14. október - bréf frá skólastjóra
Dagana 10.-14. október næstkomandi er í fyrsta skipti sérstök Forvarnarvika í öllum grunnskólum Garðabæjar. Við gerum ráð fyrir því að þetta sé upphaf að góðu og öflugu sameiginlegu forvarnar- og fræðslustarfi í Garðabæ.
Til forvarnarvikunnar er efnt að frumkvæði Mannréttinda- og forvarnarnefndar Garðabæjar og Fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar. Þema vikunnar er ,,Notkun snjalltækja, svefnleysi og kvíði“.
Tilurð forvarnarvikunnar er m.a. niðurstöður kannana og rannsókna ,,Ungt fólk“ sem lögð er fyrir nemendur grunnskóla á Íslandi í 5.-10. bekk á tveggja ára fresti. Í niðurstöðum þessara kannana sem lagðar hafa verið fyrir mörg undanfarin ár og áratugi kemur greinilega fram aukin og mikil tengsl þess að þau börn og unglingar sem nýta mikið/ofnota snjalltæki eru svefnlaus og kvíðnari en þau börn sem nýta snjalltæki í hófi eða mjög lítið.
Innan forvarnarviku grunnskólanna fellur einnig Forvarnardagur forseta Íslands 12. október sem hefur sérstaklega verið helgaður vímuefnaforvörnum og fræðslu um skaðsemi vímuefna.
Við munum vinna ýmis verkefni í skólanum þessa viku sem falla undir þema vikunnar sem og önnur verkefni sem falla undir fjaðrir skólans um ,,Vináttu og að – allir eru einstakir“. Unnið verður með og í anda ,,Uppeldis til ábyrgðar- uppbyggingar sjálfsaga“ sem er megin vinnuaðferð okkar í Álftanesskóla til að efla sjálfstæði og öryggi barna og unglinga, draga út togstreitu í samskiptum og byggja upp jákvæðan skólabrag og öflugan vinnustað sem hefur það að markmiði að ná sem bestum námsárangri.
Mannréttinda- og forvarnarnefnd Garðabæjar og Fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar styrkja verkefni vikunnar m.a. með fyrirlestri á vegum þeirra og Grunnstoðar foreldrafélaga grunnskóla Garðabæjar fyrir foreldra 11. október og með fræðsluerindum fyrir nemendur og starfsmenn grunnskólanna í forvarnarvikunni.
Síðastliðin fjögur ár hefur verið unnið mikið og þarft verkefni í Garðabæ með öllum þeim sem koma að starfi og fræðslu með börnum í sveitarfélaginu undir merkjum um ,,Velferð barna“ sem m.a tekur á fræðslu og viðbrögðum starfsmanna og einstaklinga sem vinna með börnunum í Garðabæ hvernig bregðast skuli við komi upp vitneskja um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sem og annað ofbeldi og eða áhættuhegðun barna.
Snjalltæki eru og geta verið góð tæknileg þarfaþing og hjálpað í öllum boðskiptum og til að nálgast og miðla upplýsingum. Öflugustu snjallsímar og snjalltæki veita aðgengi að Internetinu og þannig miklu efni sem þar er bæði mjög góðu og gagnlegu en á sama tíma einnig stórum ruslahaug með miklu af mjög slæmu efni.
Það er m.a. hlutverk ykkar foreldra og okkar starfsmanna í Álftanesskóla að kenna og leiðbeina börnum og unglingum um þennan frumskóg sem Internetið er og snjalltækið veitir aðgengi að. Snjalltæki er líka auðveldlega hægt að misnota sem og ofnota.
Í Álftanesskóla eru skólareglur og undir þær falla reglur skólans um nýtingu snjalltækja í skólastarfi. Reglan um snjalltækni í skólastarfi Álftanesskóla er einföld: ,, Meðferð og notkun snjalltækja er óheimil í kennslustundum nema með leyfi kennara“. Snjallúr falla einnig undir þessar skólareglur og reglu okkar um meðferð snjalltækja í kennslustundum og eru notkun þeirra óheimil í kennslustundum.
Sum þessara snjalltækja geta aukið öryggi einstaklings en á sama tíma aukið eða skapað óöryggi og valdið öðrum tjóni og vanlíðan sé þau ofnotuð eða illa með þau farið.
Nýtt verkefni í grunnskólum Garðabæjar og hér í Álftanesskóla er að nemendur í 7.-10. bekk hafa leyfi til að hafa meðferðis eigið snjallsíma/ snjalltæki til eigin afnota í kennslu þegar það er á dagskrá og með leyfi kennara. Gerður er sérstakur samningur milli foreldra, nemandans og skólans um aðgengi að sérstöku námsneti á vegum grunnskóla Garðabæjar.
,,Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“. Við gerum öll mistök en reynum að læra af þeim og bæta samskipti og vera fyrirmynd barnanna og nemenda okkar. Það má segja Nei en þá þarf líka að standa við það. Það er í lagi að slökkva á snjallsímanum/ snjalltækinu og netaðgenginu. Hvort ert þú þjónn snjalltækisins /snjallsímans eða er snjalltækið-/ síminn þjónn þinn og þarfaþing ?
Börn og ungmenni þurfa uppbyggjandi og umhyggjusaman aga og skýr mörk. Þau þurfa líka að hafa hlutverk inni á heimili sínu sem og í skólanum. Hver og einn ber ábyrgð á því sem hann segir og gerir, skrifar og sendir frá sér á.
Með samstarfskveðjum
Sveinbjörn Markús Njálsson
skólastjóri Álftanesskóla.