"Þegar mynd segir meira en 1000 orð" fyrirlestur í boði Foreldrafélagsins
Á morgun miðvikudag mun Foreldrafélag Álftanesskóla bjóða öllum nemendum í 5. - 10. bekk upp á fræðslufyrirlestur sem kallast: „Þegar mynd segir meira en 1000 orð“. Fræðslan er í höndum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, höfundar verðlaunamyndanna „Fáðu já!“ og „Stattu með þér!“ sem notaðar hafa verið í kennslu í grunnskólum landsins. Þórdís Elva var með fræðslu fyrir foreldra í Álftanesskóla 27. apríl sl. um öryggi barna í stafrænum samskiptum.
Um fræðsluna sem nemendur fá á morgun segir Þórdís Elva: „Um er að ræða fræðslu fyrir börn og unglinga um öryggi í stafrænum samskiptum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ganga nektarmyndir af íslenskum börnum manna á milli á netinu, en lögreglunni hefur reynst erfitt að bregðast við vandamálinu. Dreifingin er stjórnlaus og netið gleymir engu. Sexting (að skiptast á nektarmyndum) meðal barna og unglinga eykur á vandann. Rík þörf er fyrir vitundarvakningu um áhættuna sem felst í slíkum myndasendingum og ábyrgð þeirra sem dreifa myndum af öðrum í leyfisleysi.“
Fræðsla Þórdísar Elvu verður tvennu lagi, annars vegar fyrir 5.-7. bekk og hins vegar 8.-10. bekk. Ekki verður um nákvæmlega sömu fyrirlestrana að ræða þar sem tekið verður mið af aldri og þroska barnanna.