Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Söngkeppni Elítunnar

11.02.2014

Það er margt um að vera í félagslífi unglinganna um þessar mundir. Við byrjuðum árið með því að halda frábæra söngkeppni Elítunnar, en siguratriðið þar keppti  fyrir okkar hönd í undankeppni fyrir Samfés. Okkar keppni var haldin 17.janúar, það var fullt út úr dyrum, bæði foreldrar og samnemendur sem hlýddu á söngvarana. Dómnefndin var ekki af verri endanum, það var Fannar Sigurjón, fyrrum nemandi í Álftanesskóla, Ingibjörg Fríða, nemand í FÍH og söngkona mikil og loks Steinar en hann er þekktastur fyrir lagið Up sem hann sendi frá sér í fyrra. Hann endaði svo keppnina á því að syngja lagið við miklar undirtektir nemendanna. Það voru sex atriði sem kepptu og það fór þannig að Birta Marín (9. bekk) og Sara Renee (8.bekk) báru sigur úr bítum með Beyonce slagarann Halo í íslenskri þýðingu Friðriks Sturlusonar. Í öðru sæti voru Aldís og Halldóra og í þriðja sæti Elísa, allt stúlkur í 8. bekk.

Þann 31. janúar var svo undankeppnin haldin í Sjálandsskóla. Þarna voru níu félagsmiðstöðvar að keppast um að komast í aðalkeppnina. Það voru fjögur atriði sem komust áfram og Elítan var eitt af þeim. Það þýðir að 8. mars nk. munu þessar stúlkur keppa við flottustu atriði landsins í Hörpu. Við óskum þeim góðs gengis og hlökkum til að fylgjast með þeim í mars.

 

Til baka
English
Hafðu samband