Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Garðabæ

28.04.2023
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Garðabæ

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Garðabæ fór fram hér í Álftanesskóla í gær, en þá lásu nemendur í 7. bekk sem valdir hafa verið úr Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Urriðaholtsskóla svipmyndir úr skáldverki og ljóð.

Jóhann Steinar Ingimundarsson varaformaður skólanefndar flutti ávarp á hátíðinni og Þorgerður Erla Ögmundsdóttir og Nökkvi Styr Jóhannesson nemendur í Álftanesskóla og Tónlistarskóla Garðabæjar voru með tónlistaratriði. Maggy Ashipala nemandi í Álftanesskóla frá Namibíu las ljóð á móðurmáli sínu Oshiwambo. Dómarar keppninnar voru þau Auður Björgvinsdóttir læsisfræðingur, Jóhann Skagfjörð Magnússon skólastjóri Garðaskóla og Hrönn Bergþórsdóttir skólastjóri í Víðistaðaskóla og fyrrverandi stjórnarmeðlimur Radda en hún var jafnframt formaður dómnefndar.

Nemendur stóðu sig með mikilli prýði við upplesturinn og í lokin fengu allir viðurkenningu fyrir þátttöku. Ásta Emilý Evertsdóttir nemandi í Álftanesskóla stóð uppi sem sigurvegari keppninnar, í öðru sæti var  Viktor Óli Grétarsson nemandi í Sjálandsskóla og í þriðja sæti Heiðar Leó Sölvason nemandi í Hofsstaðaskóla

Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar kom og veitti verðlaun. 

Við óskum sigurvegurunum innilega til hamingju og öllum þátttakendum fyrir skemmtilega og flotta keppni.

Hér má sjá fleiri myndir af lokahátíðinni.

 

Til baka
English
Hafðu samband