Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Saga Álftanesskóla

Fyrsti áfangi Álftanesskóla var tekinn í notkun haustið 1978. Á fyrsta starfsárinu voru 70 nemendur í skólanum frá aldrinum sex til tólf ára. Skólaárið var átta mánuðir og var breytt í átta og hálfan mánuð árið 1986, síðan í níu mánuði árið þar á eftir. Á fyrstu starfsárum Álftanesskóla sóttu nemendur íþróttakennslu í Lækjarskóla í Hafnarfirði, seinna í Haukahúsið og sundkennsla fór fram á vorin í Sundhöllinni þar í bæ. Þetta breyttist þegar sundlaugin var byggð hér á Álftanesi 1988 og íþróttahúsið 1989.

Á þessum árum sem liðin eru hefur skólahúsnæðið verið stækkað í nokkrum áföngum eftir því sem nemendum hefur fjölgað. Haustið 2000 var tekinn í notkun fyrri áfangi nýrrar viðbyggingar. Þar er sérhannað kennslurými til kennslu í tæknimennt (hönnun/smíði, upplýsingamennt, tölvur), listum (myndmennt, textíl), heimilisfræði og náttúrufræði. Ennfremur eru fjórar almennar kennslustofur, námsver, móttökueldhús og salur fyrir félagsstörf og uppákomur. Tónmenntastofan er enn til húsa í Íþróttamiðstöðinni en stefnan er að hún verði á annarri hæð í nýbyggingunni.

Á 120. afmælisári Bessastaðahrepps 1998 var gefið út námsefni um heimabyggð okkar, Álftanes, sem Anna Ólafsdóttir Björnsson skrifaði með dyggum stuðningi kennara og nemenda skólans. Námsefnið hefur skipað sér sess með öðru námsefni skólans í samfélagsfræðum og reynist okkur drjúgur fróðleiksbrunnur.

Saga sveitarfélagsins nær til upphafs landnáms. Margir atburðir Íslandssögunnar eru tengdir Álftanesi, s.s. Bessastaðir nú aðsetur Forseta Íslands. Hausastaðaskóli var annar fyrstu barnaskóla á Íslandi en hann var stofnaður 1792. Fyrstu kartöflurnar voru ræktaðar á Álftanesi og fyrsta stjörnuskoðunarstöðin var starfrækt á Bessastöðum. Alsírbúar (Tyrkjaránið) strönduðu skipi sínu hér á leið úr ránsferð með marga íslenska þræla innanborðs.

Fjölnismenn stunduðu margir nám á Bessastöðum þannig að vagga lýðræðis hefur lengi átt þar aðsetur.

English
Hafðu samband