Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Af aðalfundi Foreldrafélags Álftanesskóla 4. júní síðastliðinn

08.06.2015
Af aðalfundi Foreldrafélags Álftanesskóla 4. júní síðastliðinn

Þann 4. júní var haldinn aðalfundur Foreldrafélags Álftanesskóla. Um hefðbundin aðalfundarstörf var að ræða en breytingartillögur á lögum félagsins lágu fyrir fundinum sem nú hafa verið samþykktar en nýsamþykkt lög félagsins eru nú aðgengileg á vef skólans. Á fundinum var farið yfir starf félagsins á skólaárinu og getið þið nálgast skýrslu stjórnar hér.

Breytingar urðu á stjórn félagsins þar sem Sigrún Edda Eðvarðsdóttir fráfarandi formaður Foreldrafélags Álftanesskóla gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa sem og Guðríður Anna Kristjánsdóttir sem verið hefur varaformaður félagsins.

Nýir fulltrúar í stjórn félagsins eru Elín Hlíf Helgadóttir og Selma Dagbjört Guðbergsdóttir.  Kristján Jón Jónatansson var endurkjörinn skoðunarmaður reikninga og Kristín Rós Björnsdóttir til vara.

Anna María Karlsdóttir fulltrúi foreldra í skólaráði gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa en skipunartími í skólaráð er tvö ár í senn. Í stað Önnu Maríu var kjörin Ásta Leonhards. Jóhanna St. Snorradóttir situr áfram í stjórn til ársins 2016. Það er síðan nýrrar stjórnar að ákveða hvaða fulltrúi úr stjórn félagsins komi til með að sitja í skólaráði en Eiríkur Ágúst Guðjónsson hefur setið fyrir hönd stjórnar Foreldrafélagsins í skólaráði í vetur.

Á aðalfundinum færði stjórn félagsins eftirfarandi aðilum þakklætisvott fyrir störf sín í þágu foreldrasamfélagsins.

Fyrstan ber að nefna Svein Bjarnason fyrir vel unnin störf sem gangbrautavörður en hann hefur sinnt því hlutverki af mikilli alúð og umhyggjusemi í garð barna á Álftanesi.

Sigríði Klingenberg var þökkuð hjálpsemi og góðvild í þágu foreldrasamfélagsins á Álftanesi. Hún hefur undanfarin ár verið boðin og búin til að aðstoða okkur í tengslum við Jóla- og góðgerðadaginn og undanfarin ár stýrt dagskrá dagsins með einstökum hætti. 

Steinunni Sigurbergsdóttur deildarstjóra í Álftanesskóla var einnig þakkað frábært samstarf en þau eru fjölmörg verkefnin sem Foreldrafélagið og Álftanesskóli standa sameiginlega að. 

Þá var þeim Kristjáni Jóni Jónatanssyni skoðunarmanni reikninga, Gunnari Júlíussyni sem hefur lagt Foreldrafélaginu lið með hönnun og auglýsingagerð og Anney Bæringsdóttur fyrir fundarstjórn á aðalfundi þakkað sérstaklega fyrir þeirra framlag til félagsins.

Guðríði Önnu Kristjánsdóttur fráfarandi varaformanni félagsins, Önnu Maríu Karlsdóttur fráfarandi skólaráðsfulltrúa foreldra og Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur fráfarandi formanni félagsins var þakkað sérstaklega af stjórn félagsins fyrir þeirra óeigingjarna starf í þágu Foreldrafélagsins.

Álftanesskóla voru færðar 50 heyrnarhlífar fyrir nemendur sem og skilti til að setja á hús íþróttamiðstöðvar til að minna á gjöf foreldrafélagsins frá síðasta aðalfundi. Með skiltinu er ætlunin að vekja athygli fólks á þeim búnaði sem þarna er til staðar og styðja á sýnilegan hátt við öfluga hjólamenningu skólabarna á Álftanesi.

Fyrir hönd fráfarandi stjórnar vil ég óska nýrri stjórn velfarnaðar á nýju skólaári og nota tækifærið og þakka ykkur öllum kærlega fyrir frábært og gefandi samstarf á liðnum árum. Það er hverju skólasamfélagi dýrmætt að eiga áhugasama skólaforeldra sem láta sig skólasamfélagið og samstarf heimilis og skóla varða. 

Með kærri kveðju,

F.h. Foreldrafélags Álftanesskóla

Sigrún Edda Eðvarðsdóttir,

fráfarandi formaður

Hér má að neðan má sjá myndir frá aðalfundinum einnig má sjá myndirnar í myndasafni skólans.  
   
   
   

 

Til baka
English
Hafðu samband