Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rýmingaráætlun (endurskoðun haust 2020, nýbygging)

Ef brunaviðvörunarkerfi skólans fer í gang skal unnið að rýmingu á eftirfarandi máta.

Aðgerðahópur sem í eru skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, verkefnisstjóri í upplýsingaveri, skólaliðar, skrifstofumaður, og umsjónarmaður skólahúsnæðis fara að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis við aðalinngang skólans og kanna hvaðan brunaboðið kemur – stöðva vælu.

Allir sem yfirgefa skólahúsnæðið skulu ganga ákveðið út (ekki hlaupa), taka með sér skó sjái þeir ekki merki um eld eða aðra hættu.

Nemendur fara á þann stað sem merktur er hverjum bekk. Þar raða þeir sér upp í stafrófsröð.

Umsjónarkennari fer yfir hvaða nemendur eru mættir og hverjir eru ekki mættir í skólann (til að sjá út hverjir gætu ennþá verið inni í skólanum).

Umsjónarkennari lætur síðan hlaupara vita hvort einhvern vantar.

Ef þarf að rýma skólann undirbúa kennarar rýmingu á kennslustofum. Kennarar fara eftir ákveðnum leiðbeiningum sem er að finna í öllum kennslustofum. Nemendur yfirgefa ekki kennslustofu fyrr en kennari hefur fengið skilaboð um slíkt og að útgönguleiðin sé greið. Hver kennari er ábyrgur fyrir þeim bekk/hóp sem hann er að kenna þegar hættuástand skapast. Þegar kennslustofa er yfirgefin þarf hann að muna eftir nafnalistanum og læsa. Ætíð skal velja þann neyðarútgang sem er næstur. Teikningar af útgönguleiðum eru á göngum skólans.

Þegar komið er út á söfnunarsvæðin er mjög mikilvægt að nemendur standi í stafrófsröð hjá sínu bekkjarmerki - kennari fer yfir nafnalistann og kannar hvort allir séu komnir út. Kennari kemur síðan upplýsingum um stöðuna til umsjónarmanns söfnunarsvæðis með því að veifa rauðu spjaldi ef einhvern vantar.

Slökkviliðið kemur á staðinn. Umsjónarmaður söfnunarsvæðis kemur upplýsingum um stöðuna til slökkviliðs.

 

Viðbrögð við eldsvoða

Leiðbeiningar fyrir nemendur og kennara.

Þegar brunaviðvörunarkerfið fer í gang raða nemendur sér í stafrófsröð í stofunni. Kennari og nemendur bíða frekari fyrirmæla.

Ef rýma þarf skólann þarf að athuga hvort leiðin út sé greiðfær. Ef eldur er mikill þá getur þurft að bíða í kennslustofu – hurðir að kennslustofum eru öryggishurðir sem þola mikinn hita.

Ef aðstæður eru þannig þá taka nemendur með sér yfirhafnir og skó. Æskilegt er að nemendur temji sér þann góða sið að vera í inniskóm.

Nemendur ganga í röð á eftir kennara sínum út á söfnunarsvæði. Bannað er að hlaupa og vera með óþarfa hávaða. Kennari þarf að muna eftir nafnalista og muna að loka og læsa hurðum þegar kennslustofa er yfirgefin.

Þegar nemendur eru komnir út á söfnunarsvæðið mynda þeir tvöfalda röð undir sínu bekkjarheiti – umsjónarkennari/kennari fer yfir nafnalistann og aðgætir hvort allir nemendur hafi komið út.

Kennari tilkynnir stöðuna til umsjónarmanns söfnunarsvæðis – veifar rauðu spjaldi ef einhvern vantar.

Skólaritari mætir með fjarvistabókina og ber saman við viðveruskrá kennara. Ef um falsboð er að ræða er mjög mikilvægt að kennari noti tækifærið og ræði við nemendur um mikilvægi brunavarna og fari vel yfir rýmingaráætlunina með nemendum sínum.

 

Flóttaleiðir:

·         þegar brunakerfið fer í gang skulu allir alltaf yfirgefa skólahúsnæðið og fara á þann stað sem þeim tilheyrir

·         allir sem yfirgefa skólahúsnæðið skulu ganga ákveðið út (ekki hlaupa), taka með sér skó sjái þeir ekki merki um eld eða aðra hættu

·         nemendur fara á þann stað sem merktur er hverjum bekk. Þar raða þeir sér upp í stafrófsröð

·         umsjónarkennari fer yfir hvaða nemendur eru mættir og hverjir eru ekki mættir í skólann (til að sjá út hverjir gætu ennþá verið inni í skólanum)

·         umsjónarkennari lætur síðan hlaupara vita hvort einhvern vantar

 

Gátlisti kennarans:

·         kynna fyrir nemendum flóttaleiðir í upphafi skólaárs (ágúst)

·         sýna nemendum svæðið sem þeir eiga að safnast saman á, á skólalóðinni. Bekkurinn á sitt heimasvæði sama hvar hann er staddur í skólanum þegar brunabjallan fer í gang

·         æfa viðbrögð ef bruna ber að höndum með því að sýna nemendum að þeir eigi að fara út eins fljótt og auðið er. Þeir fara ekki í sínar heimastofur ef þeir eru t.d. í sérgreinum heldur fara stystu leið út og á sitt heimasvæði á skólalóðinni

·         ef nemendur eru í matsalnum, þegar brunabjallan glymur, þá fara kennarar út á svæði sinna nemenda

·         sjá til þess að enginn nemandi sé eftir í stofunni. Kennarinn á að vera síðastur út úr stofunni

·         sjá til þess að nemendur raði sér upp í stafrófsröð úti á sínu svæði. Síðan sér hver nemandi um nemandann fyrir framan sig og lætur kennarann vita hvort þann nemanda vantar. Kennarinn sér um aftasta nemandann og að koma þessum upplýsingum áfram til brunafulltrúa

Gátlisti fyrir starfsfólk:

Þegar brunabjallan glymur:

·         gangaverðir í Vesturlandi athugi salerni áður en þeir yfirgefa skólann

·         gangaverðir í Austurlandi athugi salerni áður en þeir yfirgefa skólann

·         gangavörður hjá elsta stigi á 2. og 3. hæðinni athugi salerni áður en hann yfirgefur skólann

·         að starfsfólk hjálpi til við að rýma ganga og koma í veg fyrir átroðning

 

Gátlisti fyrir brunafulltrúa (hlaupara):

·         þeir yfirfara möppur á skrifstofu á hverju skólaári. Í henni þurfa að vera nafnalistar yfir alla bekki skólans, bekkjarskrár yfir alla bekkina, gátlisti yfir svæðið, loftmynd með skipulagi, fjöldi í hópum, starfsmannalisti og penni

·         brunafulltrúar eiga að vera tveir

·         annar fulltrúinn kallast A fulltrúi en hinn kallast B fulltrúi

·         skipa þarf varamenn fyrir bæði A og B fulltrúa

·         setja sig inn í hvernig fara á um svæðið og kynna fyrir varamönnum hvernig þeim ber að hegða sér

·         varamenn taki þátt í brunaæfingum með fulltrúum

 

Ef kerfið fer í gang:

·         brunafulltrúar sækja möppur sem eru inn á skrifstofu og eru merktar A og B

·         báðir fulltrúarnir fara út um aðalinngang skólans. A fulltrúi byrjar að kanna svæðið sem er til hægri. B fulltrúi byrjar á svæðinu sem er til vinstri. Þeir mætast á miðri leið

·         þar bera þeir saman bækur sínar og hafa samskipti við brunastjóra/húsvörð/slökkvilið

·         þegar búið er að fara yfir svæðið þarf að afhenda slökkviliði/brunastjóra niðurstöðurnar, þar sem skýrt kemur fram hvort allir hafi skilað sér út

·         brunastjóri tekur síðan ákvörðun í samráði við slökkvilið/húsvörð um hvort allir megi fara inn aftur

·         fara um svæðið og tilkynna hvenær börnin mega fara aftur inn í skóla


 

Gátlisti brunastjóra

Hann á að fylgja eftir:

·         að farið sé eftir gátlistum 1. kennarar, 2, starfsfólk, 3.skólastjórnendur, 4. skrifstofa og húsvörður

·         hann sér um að skipuleggja brunaæfingar tvisvar á ári – að hausti (okt.), og vori (apríl)  í samráði við slökkvilið og skólastjórnendur

·         hann er tengiliður við skólastjórnendur, skrifstofu, brunafulltrúa, (þeir sem fara um svæðið til að athuga hvort allir hafi skilað sér út), og húsvörð

·         hann fer í stofur og athugar hvort flóttaleiðir, nýir bekkjarlistar og loftmynd með staðsetningu viðkomandi bekkjar á skólalóð hangi upp í stofunum

·         hann kynnir brunavarnir fyrir starfsmönnum á starfsmannafundi

·         hann sér um að fá fræðslu um eldvarnir í skólann

·         hann athugar að til séu skóhlífar í öllum stofum og í matsal. Þær eru pantaðar hjá Rekstrarvörum

·         hann velur eða sér til þess að það sé búið að skipa brunafulltrúa og þeir séu vel meðvitaðir um starf sitt

·         hann skráir í möppu á skrifstofu, allt sem viðkemur brunavörnum í skólanum s.s. brunaæfingar, hvenær og hvar brunaboðar fara í gang, þegar kerfið er yfirfarið o.s.frv.

 

Gátlisti fyrir skólaritara:

·         yfirfara möppur á skrifstofu á hverju skólaári. Í henni þarf að vera skráð hver er brunastjórinn hverjir eru brunafulltrúar ásamt varamönnum, nafnalistar yfir alla bekki ,skólans, bekkjaskrár yfir alla bekkina, gátlisti yfir svæðið, loftmynd með skipulagi, fjöldi í hópum, starfsmannalisti og penni

·         uppfæra möppuna um leið og breytingar eiga sér stað s.s. nýir nemendur koma

·         þegar bjalla fer í gang þarf að kalla hópkall í símkerfi skólans sem heyrist í öllum stofum

·         taka lista yfir fjarstadda nemendur með sér út ef brunaboði fer í gang

 

Gátlisti skólastjórnenda:

·         skipa ábyrgðarmann brunamála ár hvert (brunastjóri)

·         skipa tvo öryggisverði sem eru fulltrúar stjórnenda og láta kjósa á starfsmannafundi tvo öryggistrúnaðarmenn sem eru fulltrúar starfsmanna. Þeir geta starfað tvö ár í senn. Þeir mynda öryggisnefnd ásamt hverjum þeim sem stjórnendur kjósa að sitji í nefndinni

·         velja skal tvo brunafulltrúa (hlaupara) A og B sem fara um svæðið með möppurnar til að athuga hvort allir hafi skilað sér út. Einnig þarf að velja tvo varamenn í þeirra stað. Þessir aðilar mega ekki vera bundnir í kennslu

·         fylgja eftir að kennarar vinni eftir gátlista t.d. með kynningu á brunamálum á starfsmannafundum

·         sjá til þess að brunakerfi skólans sé í lagi til að allir aðilar heyri í bjöllunum

·         ef brunaboðar eru brotnir að óþörfu þarf að taka á því föstum tökum m.a. með því að finna út hverjir stóðu að verki

·         þeir sýna gott fordæmi og fara út eins og aðrir

·         þegar búið er að kanna hvers vegna brunbjalla fór í gang og hætta er um garð gengin, þurfa skólastjórnendur eða húsvörður að slökkva á brunabjöllum

·         ef húsvörður er ekki við  þurfa skólastjórnendur að vera fulltrúar hans

·         kynna fyrir nýliðum bruna- og öryggismál skólans

 

Gátlisti húsvarðar:

·         hann fer strax að móðurstöð til að athuga hver er orsök hringingar brunabjöllu

·         hann fer á þann stað sem boðið kemur frá og kannar svæðið

·         hann lætur brunafulltrúa/slökkvilið vita og síðan er ákvörðun um framhaldið tekin út frá því

·         hann sér um að brunakerfið sé í lagi  í samráði við slökkvilið og öryggisfyrirtæki

·         hann sér um að halda flóttaleiðum greiðum og að brunahurðir séu í lagi

 

 

English
Hafðu samband