Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Leiðarljós

Við skipulag skólastarfs er tekið mið af nútíma þekkingarsamfélagi og horft til þess hvaða færni er mikilvægt að efla hjá komandi kynslóð. Áhersla er lögð á að örva sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Litið er á nemendur sem sjálfstæða einstaklinga sem hafa ákveðin réttindi en jafnframt skyldur og ábyrgð.

Í skólastarfinu er lögð áhersla á að: Allir eru einstakir

Litið er svo á að mannleg samskipti og ábyrg hegðun séu grunnþættir í skólastarfinu og að forsenda náms sé að nemendum líði vel í skólanum. Áhersla er lögð á fjölbreytta og sveigjanlega kennsluhætti í samræmi við einstaklingsmiðað nám. Gagnkvæm virðing er forsenda jákvæðra samskipta og nauðsynlegt er að starfsfólkið sýni gott fordæmi í þeim efnum. Reynt er að stuðla að því að öllum geti liðið vel í skólanum. Starfsmenn skólans leggja sig fram við að eiga jákvæð samskipti við heimilin og hvetja foreldra til þess að hafa samband þegar þeim liggur eitthvað á hjarta. Þegar heimili og skóli leggjast á eitt má búast við betri líðan nemenda, auknu öryggi og betri námsárangri. Mannleg samskipti og ábyrg hegðun eru grunnþættir í skólastarfinu og að forsenda náms er að nemendum líði vel í skólanum.

Uppeldis- og kennslufræðileg stefna:

           að kenna nemendum sjálfsstjórn og ýta undir sjálfstraust

           að hvetja hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum

           að efla nemendur í að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum

           að skólinn sé virkur í þróunarstarfi

           að skólinn leggi sig fram við að bjóða upp á fjölbreytt og skapandi nám

           að efla og auka samstarf heimilis og skóla

           að skólinn stuðli að markvissri umhverfisstefnu

 

Í Álftanesskóla er lögð áhersla á: 

Umhverfið

Álftanesskóli býr við fjölbreytta náttúru þar sem stutt er í fjörur, fjölskrúðugt fuglalíf, tjarnir og skemmtilegt umhverfi í göngufæri og er áhersla lögð á tengsl við umhverfið í skólastarfinu.  Skólastarfið fer að hluta til fram utandyra og er gert ráð fyrir því að allir nemendahópar séu að lágmarki eina kennslustund í útikennslu á viku. Áhersla er á að nemendur tileinki sér ábyrgan lífsstíl og virðingu gagnvart mönnum, dýrum og umhverfi sínu. Álftanesskóli er umhverfisskóli og hefur sett sér umhverfisstefnu þar sem lögð er áhersla á að auka þekkingu og virðingu nemenda fyrir umhverfi sínu og skapa jákvætt viðhorf þeirra og starfsmanna til umhverfismála. Lögð er áhersla á útikennslu og hreyfingu.

 

„Uppeldi til ábyrgðar”

Unnið hefur verið samkvæmt „Uppbyggingarstefnu“ (Uppeldi til ábyrgðar) (e. Restitution)  í Álftanesskóla frá haustinu 2002. „Uppeldi til ábyrgðar“ í skólastarfi er hugmyndakerfi sem í felst bæði aðferð og stefnumörkun skóla til bættra samskipta. Meginatriði er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga, sjálfsstjórn og ýta undir sjálfstraust. „Uppeldi til ábyrgðar“ leggur áherslu á samskipti fremur en reglur, ábyrgð fremur en blinda hlýðni og virðingu fremur en stjörnugjöf. Stefnan treystir á hæfileikann til sjálfsstjórnar og að  hver og einn geti brugðist rétt við aðstæðum. „Uppeldi til ábyrgðar“ kennir sjálfsaga og hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.

Meginatriðið er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga, sjálfstjórn og ýta undir sjálfstraust. Uppbygging sjálfsaga leggur áherslu á jákvæð samskipti fremur en reglur, á ábyrgð fremur en blinda hlýðni og á virðingu fremur en stjörnugjöf. Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn geti hugsað áður en hann framkvæmir og brugðist rétt við aðstæðum.

Uppbygging sjálfsaga hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.  Aðferðin nýtist við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að vaxa og njóta sín. Þetta er aðferð í samskiptum og aðferð við að ná jafnvægi og innri styrk eftir að hafa beitt samferðamenn sína rangindum eða lent upp á kant við þá. Leitast er við að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.

 

Skapandi starf

Umhverfi 21. aldarinnar er síbreytilegt vegna mikilla nýjunga á tækni og þekkingu. Þetta gerir þær kröfur til okkar framtíðar þjóðfélagsþegna að þeir verði færir um að takast á við skapandi störf sem krefjast frumkvæðis og gagnrýnnar hugsunar. Þess vegna leggur Álftanesskóli áherslu á skapandi starf og list- og verkgreinakennslu. Listgreinakennslan fer fram í vinnulotum í 1.–9. bekk og smiðjuvinnu með auknu vali á elsta stigi. Í Álftanesskóla er lögð áhersla á tónlistarkennslu í samstarfi við tónlistarskólann. Á miðstigi eru fjölgreinar í vinnulotum þar sem lögð er áhersla á mismunandi greinar, s.s. leiklist, hreyfingu, heimspeki, upplýsingamennt o.fl.

 

Námsaðlögun

Í skólanum er leitast við að haga störfum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins, eins og fram kemur í 2. grein grunnskólalaga. Stefnt er að því að mæta hverjum nemanda út frá hans eigin forsendum í takt við skilgreiningu skólans á hugtakinu námsaðlögun: Kennarinn kappkostar að koma með sveigjanlegum hætti til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda. Nemendur þurfa því ekki allir að vera að læra það sama á sama tíma.

 

 

English
Hafðu samband