Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forvarnaráætlun

Forvarnarstefna er hluti af skólanámskrá Álftanesskóla og tekur mið af aldri nemenda. Markmið með forvörnum er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri  sjálfsmynd og lífsýn, góðri líðan nemenda og vinna gegn óæskilegri hegðun. Markvisst er unnið að forvörnum í víðum skilningi og allt skólastarf miðast að því að nemendur öðlist sjálfstjórn og hæfni í að bera ábyrgð á eigin hegðun.

Forvarnaráætlun skólans skiptist í:

a. velferð barna í Garðabæ

b. foreldrasamstarf

c. stoðþjónustu

d. grunnþættir menntunar

e. „Uppeldi til ábyrgðar” - samskipti og líðan í skóla

f. vímuvarnir

g. jafnréttisáætlun

h. eineltisáætlun Álftanesskóla

i. áfallaáætlun Álftanesskóla

j. rýmingaráætlun Álftanesskóla

k. skólareglur

l. öryggis- og slysavarnir

Markmið skólans er að skapa þær aðstæður að öllum líði vel við starf og leik. Til þess að svo megi verða þurfa samskipti einstaklinganna að einkennast af virðingu fyrir þeim réttindum og skyldum sem hver og einn hefur. Öll umgengni á einnig að bera vott um ábyrga hegðun og tillitssemi. Forvarnarfræðsla er samofin öllu starfi skólans.

Markmið stefnu skólans um forvarnir er:

  • að byggja upp sjálfstæða einstaklinga

  • að hvetja til hollra lífshátta og tómstunda

  • að efla samstarf skóla og félagsmiðstöðvar

  • að standa að virkri upplýsingaáætlun gagnvart nemendum, foreldrum/forráðamönnum og kennurum

  • að miðla ýmsum fróðleik til foreldra/forráðamanna, nemenda og starfsfólks skólans með bæklingum, blöðum o.fl.

  • að halda fræðslufundi fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans, t.d. með fyrirlestrum. Nokkur forvarnarverkefni í Álftanesskóla eru unnin í nánu samstarfi við Félagsmiðstöðina Elítan, foreldrafélag Álftanesskóla og fleiri samstarfsaðila. Árgangar sækja tiltekna viðburði, ákveðin verkefni eru kennd og umsjónarkennarar vinna með umsjónarnemendum sínum í vikulegum lífsleikni og/eða umsjónartímum og á þemadögum.

  • að í frímínútum nemenda sé góð gæsla á skólalóð. Nemendum skólans er tímaskipt eftir stigum til að minnka fjölda nemenda á útisvæði samtímis, og nýta betur leiktæki og leikvelli

Samstarf við foreldra/forráðamenn hefur mikið forvarnargildi. Mikilvægt er að samstarfið byggi á gagnkvæmri virðingu, trausti og ábyrgð. Við skólann starfar öflugt foreldrafélag sem hefur stutt skólann í ýmsum verkefnum tengt forvörnum. Sjá nánar um starf Foreldrafélags Álftanesskóla á heimasíðu skólans, undir tenglinum Foreldrar.

Við móttöku nýrra nemenda er lögð áhersla á hlýjar viðtökur og skýrar upplýsingar. Foreldrar/forráðamenn og nemandi eru boðaðir í skólann til kynningar áður en kennsla hefst að hausti. Deildarstjóri fylgir nemandanum og foreldrum/forráðamönnum hans um skólann og kynnir þeim húsnæðið og umsjónarkennara ef hægt er. Nemandi og foreldrar/forráðamenn fá kynningarmöppu með ýmsum upplýsingum um skólastarfið.

Í starfi skólans er lögð áhersla á gagnkvæma virðingu og jákvæð samskipti. Forvarnir gegna stóru hlutverki í lögum um grunnskóla (2008) sem og aðalnámskrá grunnskóla (2013). Samkvæmt aðalnámskrá(2011) eru sex grunnþættir menntunar sem skulu vera leiðarljós  við námskrárgerð og fléttast inn í allt skólastarf. Allir grunnþættirnir eiga einhver tengsl við forvarnir. Grunnþættirnir eru: heilbrigði og velferð, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, læsi, sjálfbærni, sköpun.

Heilbrigði og velferð byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Heilbrigði ræðst af flóknu samskipi einstaklings og umhverfis og allt starf skólans þarf að stuðla að velferð nemenda. Skólinn gegnir hér lykilhlutverki í að efla jafnréttisvitund nemenda og skapa aðstæður sem efla andlega heilsu og bæta félagslega líðan barna og ungmenna. Þar gefast einnig tækifæri til að efla líkamlega hreysti og ýta undir jákvæð viðhorf nemenda til útiveru og hreyfingar, heilnæmra lífshátta og hollrar næringar. Þetta getur skólinn m.a. gert með því að efla færni þeirra í samskiptum, byggja upp sjálfsmynd og seiglu, færni í að taka ákvarðanir og setja sér markmið. Brýnt er að heilsueflandi áherslur skólans nái yfir holla og heilsusamlega næringu, hreyfingu, hvíld, hreinlæti og kynheilbrigði (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013).

Við skólann starfar nemendafélag skv. 10 gr. laga um grunnskóla (2008). Á hverju hausti kjósa nemendur í 8., 9. og 10. bekk 6 fulltrúa í stjórn nemendafélagsins. Stjórn skiptir með sér verkum og fundar tvisvar sinnum á hvorri önn með skólastjóra og forstöðumanni Félagsmiðstöðvar. Tveir fulltrúar nemenda úr stjórn nemendafélags sitja í skólaráði.

Í hverjum námshópi eru starfandi bekkjafulltrúar úr röðum foreldra/forráðamanna, sem skipuleggja ýmsa viðburði, s.s. bekkjakvöld,  páskabingó o.fl.

Nemendur í Álftanesskóla eru hvattir til að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Skólalóðin  þarfnaðist lagfæringa og þörf er fyrir fleiri hjólagrindur. Gerð hefur verið áætlun til 3 ára um viðhald og lagfæringar á skólalóð. Rýmingaráætlun er í endurskoðun þar sem nýbygging við skólann var tekin í notkun haustið 2020.

Unnið hefur verið með starfsaðferðir „Uppeldis til ábyrgðar“ í skólum á Íslandi frá haustinu 2000 og eru nú yfir 300 stofnanir/skólar/tómstundaheimili/félagsmiðstöðvar að vinna með þessar aðferðir. „Uppeldi til ábyrgðar“ hefur verið á stefnuskrá Álftanesskóla frá skólaárinu 2001–2002.

Bekkjafundir eru haldnir í flestum árgöngum. Þeir eru vettvangur fyrir nemendur til að auka lýðræðislega vinnu, víðsýni og sjálfsþekkingu og ræða margvísleg málefni. Á hverju hausti gerir hver bekkur sinn sáttmála, fer í gegnum mitt og þitt hlutverk o.fl. aðferðir Uppbyggingar. Á skólaárinu eru fjórir uppbyggingadagar þar sem unnið er með aðferðir „Uppeldis til ábyrgðar”.

Ýmsir aðrir viðburðir eru haldnir til þess að stuðla að samkennd nemenda eins og jólaskemmtanir, árshátíð, öskudagsgleði, íþróttadagar, listadagar o.fl.

Skólinn tekur þátt í „Stóru upplestrarkeppninni” í 7. bekk og byrja nemendur að æfa sig á degi íslenskrar tungu 16. nóv. fram að lokahátíð sem oftast er í lok mars. Skólaárið 2011–2012 tók Álftanesskóli fyrst þátt í þróunarverkefni sem fengið hefur heitið „Litla upplestrarkeppnin” og eru þátttakendur nemendur í 4. bekk á Álftanesi og Hafnarfirði. Frá og með skólaárinu 2013–2014 hefur skólinn tekið þátt í „Stóru upplestrarkeppninni“ með öðrum skólum í Garðabæ og Seltjarnarnesi.

Skólinn hefur sett sér umhverfissáttmála og flaggaði Grænfánanum í 8. sinn 2019. Lögð er áhersla á útikennslu og hreyfingu.

Í Álftanesskóla hefur verið lögð áhersla á forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi og hefur skólinn átt gott samstarf við samtökin Blátt áfram á þessu sviði. Önnur fræðsla á sviði kynheilbrigðis fer fram í lífsleikni- og/umsjónartímum og í náttúrufræði.

English
Hafðu samband