Uppeldi til ábyrgðar - Uppbygging sjálfsaga
Restitution - Self Discipline
Meginatriðið er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga, sjálfstjórn og ýta undir sjálfstraust.
Uppbygging sjálfsaga leggur áherslu á jákvæð samskipti fremur en reglur, á ábyrgð fremur en blinda hlýðni og á virðingu fremur en stjörnugjöf. Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn geti hugsað áður en hann framkvæmir og brugðist rétt við aðstæðum.
Uppbygging sjálfsaga hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Aðferðin nýtist við bekkjarstjórnun þar sem allir fá að vaxa og njóta sín. Þetta er aðferð í samskiptum og aðferð við að ná jafnvægi og innri styrk eftir að hafa beitt samferðamenn sína rangindum eða lent upp á kant við þá. Leitast er við að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.
Spurt er bæði hvernig við viljum vera og hvað við þurfum að gera til að ná eigin markmiðum í sátt og samlyndi við samferðamenn.
Unnið hefur verið með starfsaðferðir uppeldis til ábyrgðar í skólum á Íslandi frá haustinu 2000 og eru nú yfir 40 skólar að innleiða þessar aðferðir. Uppeldi til ábyrgðar hefur verið á stefnuskrá Álftanesskóla frá skólaárinu 2001–2002.
Sjá nánar um hugmyndir uppeldis til ábyrgðar í grein í Netlu veftímarits – Rannsóknarstofnun KHÍ einnig á heimasíðu félagsins Uppbygging sjálfsaga.
Kynning - Þarfirnar fimm
Kynning - Uppeldi til ábyrgðar - uppbygging sjálfsaga
Kynning - Lyklakippan