Leiðsagnamat
Samkvæmt aðalnámskrá þurfa kennarar að hjálpa nemendum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig miðar í átt að þeim. Til að ná slíku fram skal leggja áherslu á leiðsagnarmat sem byggist á því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skal stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu.Leiðsagnarmat miðar að því að meta framfarir nemenda í þeim tilgangi að nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytingar á námi og kennslu. Í leiðsagnarmati er fylgst með nemendum á námstímanum og þeim leiðbeint. Lögð er áhersla á fjölbreyttar matsaðferðir, s.s. kannanir, frammistöðumat, sjálfsmat, jafningjamat, samræður o.fl., til að safna upplýsingum um stöðu nemenda, hvað þeir vita og geta og hvers þeir þarfnast til að ná betri árangri. Áhersla er lögð á að nemendur séu þátttakendur í námsmatsferlinu og að endurgjöf sé regluleg í námsferlinu, hafi skýran tilgang, sé greinandi, jákvæð og gagnleg, þ.e. að nemendur geti notað endurgjöfina til að bera sig við og meta hvort þeir hafi náð árangri.
Leiðsagnarmat á að vera í þágu náms og niðurstöður þess eru ekki að notaðar í lokamati (lokaeinkunn) nemenda að vori.