Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sími/tilkynningar forfalla/leyfisveitingar

Foreldrar hafi samband við skrifstofuna ef þeir þurfa að ná í kennara. Best er að að senda tölvupóst á
        alftanesskoli@alftanesskoli.is og skrifstofan kemur skilaboðum áleiðis til kennara sem hefur samband síðar.
        Foreldrar geta aðeins haft símasamband við kennara meðan á kennslu stendur ef brýna nauðsyn ber til.
        Foreldrar eru beðnir um að hafa ekki samband við kennara í persónuleg símanúmer þeirra.
Ef foreldrar þurfa að ná í börn sín á skólatíma þarf að hafa samband við skrifstofuna sem sér um að koma
        sambandi á eða upplýsingum til nemanda. Börnum er óheimilt að nota síma sína á skólatíma og því ekki
        gert ráð fyrir að foreldrar hringi beint í börn sín þó þau séu með síma í töskunni. 
Foreldrar tilkynni veikindi daglega beint á Mentor. Það er gjarnan mikið álag á símkerfi skólans og því
        óskum við sérstaklega eftir því að veikindi séu tilkynnt á Mentor. Slíkar tilkynningar eiga að berast fyrir
        klukkan 8:15. Hér eru leiðbeiningar um veikindaskráningar á Mentor.is. Standi veikindi yfir í nokkra daga
        ber að tilkynna þau fyrir hvern dag. Ef misbrestur verður á veikindatilkynningum er litið svo á að um óheimila
        fjarvist sé að ræða. 
Ef foreldrar vilja óska eftir leyfi fyrir börn sín frá skóla þá hefur umsjónarkennari heimild til að veita leyfi í
        tvo daga. Ef um lengri leyfi er að ræða þarf að sækja sérstaklega um það hjá skólastjórnendum. Foreldrar eru
        beðnir um að virða skólatíma barnanna og taka þau ekki úr skóla á skólatíma nema brýn nauðsyn sé.
Nám nemenda í leyfum þeirra er að fullu á ábyrgð foreldra. Ekki er hægt að ætlast til að kennarar útvegi
        nemendum sérstakt námsefni meðan á leyfi stendur. Lög um grunnskóla 15.gr. 91/2008
15. gr. Skólaskylda. 
Nemendum er skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. Skólaskyldu er unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum
        sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti samkvæmt lögum
        þessum. 
Skólaskylda barns hefst að jafnaði við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára.
        Foreldrar barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar. Skólastjóri getur
        veitt slíka heimild að fenginni umsögn [skólaþjónustu]. 
Skólastjóra er heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök
        mæla með því. Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi
        grunnskólanáms. 
Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum
        námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar
        ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan
        á undanþágu stendur. 
Um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar, sbr. 3. og 4. mgr., gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
        Slík ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur ráðherra mælt fyrir um að undanþága
        verði veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að af hálfu sveitarfélags hafi ekki verið fallist á slíka beiðni. 
Setja skal viðmiðanir um undanþágur samkvæmt þessari grein í aðalnámskrá  grunnskóla.
 
English
Hafðu samband