Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sérkennsla og þjálfun 

Í grunnskólalögum er kveðið á um að skólinn skuli haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir hvers nemanda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á námi við hæfi í grunnskólum og sveitarfélögum er skylt að sjá öllum nemendum fyrir viðeigandi kennslu.

Í Álftanesskóla er leitast við að finna leiðir til að mæta þessu hlutverki á sem bestan hátt og gera námið sem skilvirkast.

Helstu markmið sérkennslu eru:

  • að styrkja sjálfsmynd nemenda
  • að nemendur fái kennslu í samræmi við þroska og námsstöðu
  • að styrkja nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum
  • að treysta á góð samskipti og samvinnu við foreldra

Sérkennsla í Álftanesskóla er skipulögð með ýmsum hætti til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda, m.a.:

  • kennsla nemenda með einstaklingsnámskrá. Kennsla sem felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/ eða kennsluaðstæðum
  • stuðningsmiðuð kennsla. Aðaláhersla á lestur og stærðfræði. Ekki er vikið verulega frá bekkjarnámskrá
  • nýbúafræðsla, ætluð nemendum sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli eða hafa dvalið langdvölum erlendis

Nemendur fá sérkennslu samkvæmt greiningu sérfræðinga og greinandi skimunarprófum, ábendingum ýmissa aðila, svo sem leikskólakennara, talmeinafræðings, kennara, deildarstjóra og foreldra. Að vori ræða sérkennarar við umsjónarkennara um stöðu nemenda og meta þeir sameiginlega þörf fyrir sérkennslu á komandi skólaári. Sérkennslutímum er skipt milli nemenda í samræmi við þarfir þeirra og endurskoðun fer fram nokkrum sinnum á ári.

Teymisfundir eru haldnir reglulega með fjölskyldum einstakra nemenda. Leitast er við að vera í nánu samstarfi við   námsráðgjafa, talmeinafræðingi, hjúkrunarfræðingi og sálfræðingi til að fá upplýsingar og vinna úr þeim í þágu nemenda þannig að hægt sé að samræma þjónustu við nemendur. Deildarstjóri stoðþjónustu vinnur einnig í þverfaglegu samstarfi við þá er koma að málefnum barna eins og Greiningar- og ráðgjafastöð, Þroska og hegðunarstöð og aðra sérfræðinga eftir þörfum nemenda. Deildarstjóri stoðþjónustu fundar reglulega með starfsfólki stoðþjónustu.

Stuðningskennsla fer fram inn í bekk eða utan bekkjar í litlu rými þar sem eru oftast fjórir til sex nemendur í hópi. Stuðningskennsla felur í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Hún er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans. Þörf fyrir stuðningskennslu er endurmetin reglulega eftir þörfum nemenda. 

English
Hafðu samband