Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lestur í desember

17.12.2020
Lestur í desember

Fyrir jól hefur verið venjan að fá rithöfunda í heimsókn til að lesa úr bókum fyrir nemendur. Eins og gefur að skilja hefur það ekki verið hægt núna en við erum svo heppin að fjölmargir rithöfundar hafa tekið upp myndbönd með upplestri úr bókum sínum sem kennarar hafa getað sýnt nemendum. Einnig las Ævar vísindamaður upp úr nýjustu bókinni sinni Þín eigin undirdjúp fyrir nemendur í 3. – 7. bekk í gegnum fjarfundabúnað. Þó að vissulega hefði verið gaman að fá Ævar í alvöru heimsókn þá tókst þetta vel og var ótrúlega skemmtilegt. Nemendur tóku vel á móti Ævari, hlustuðu vel og spurðu fjöldamargra spurninga sem hann svaraði eftir bestu getu. Hann hvatti alla til að lesa mikið og lesa það sem þeim finnst skemmtilegt, við tökum að sjálfsögðu undir það.

Á bókasafninu hefur verið hefð að draga fram jólabækurnar í byrjun desember og hvetja nemendur til jólalestrar.Vegna aðstæðna hefur þurft að takmarka aðgengi nemenda að bókasafninu en samt var ákveðið að efna til jólalestrarátaks. Í ár gátu nemendur skráð þær jólabækur sem þeir lásu á miða og skilað inn á bókasafn. Fyrir hverjar þrjár lesnar jólabækur fengu nemendur jólakúlu til að skreyta syrpujólatré á safninu með. Degi fyrir jólafrí var dregið úr jólamiðunum og var það Þorgeir Ás, nemandi í 2.R sem var svo heppinn að fá bók um jólaköttinn í verðlaun.

Við hvetjum alla til að vera duglegir að lesa í fríinu og vonandi leynast bækur í pökkum flestra barna. Ef einhver vill fá skemmtilega jólalestrarhvatningu má finna dæmi inni á Læsisvefnum

Gleðileg jól.

 

 

Til baka
English
Hafðu samband