Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hefðbundið skólastarf frá 4. maí

29.04.2020
Hefðbundið skólastarf frá 4. maí

Mánudaginn 4. maí næstkomandi hefst skólastarf í Álftanesskóla samkvæmt stundatöflu, þar með talið íþróttir, sund, frímínútur og matartímar. Íþróttakennarar munu senda foreldrum póst með frekari upplýsingum um fyrirkomulag íþróttakennslunnar. 


Skóladagatal skólaársins 2019 - 2020 mun gilda út skólaárið þar á meðal er skipulagsdagur starfsmanna þann 26. maí, vorleikar og skólaslit. Það sem skráð var á skóladagatali á tímabilinu 16. mars - 1. maí  munum við ekki geta bætt inn s.s. árshátíðir nemenda. Það er ljóst að forgangsraða verður verkefnum það sem eftirlifir skólaárs svo hefðbundnum verkefnum gæti þurft að breyta. Vorferðir og skólaslit verða með breyttum hætti og foreldrasamkomur verða því miður ekki á dagskrá. 

Álftamýri verður starfrækt með sama hætti og fyrir samkomubann. 

Öllum anddyrum skólans verður læst nema aðalanddyrinu (þ.e. við sal skólans) en foreldrar sem eiga erindi í skólann eru beðnir um að gefa sig fram við skrifstofu, ekki er ætlast til að foreldrar fari um skólann án þess að gefa sig fram við skrifstofu. Við viljum  biðja foreldra að virða tveggja metra nálægðarregluna og koma ekki inn í skólahúsnæðið að tilefnislausu til vors heldur notast við rafræn samskipti eins og hægt er.

Það er mikilvægt að allir nemendur mæti í skólann frá og með 4. maí og er skólunum gert að fylgja fast eftir að nemendur sæki skóla og styðji þá nemendur sem kvíða endurkomu í daglegt skólastarf. Við viljum biðja foreldra, eins og áður, að vera í góðu samstarfi við umsjónarkennara barna sinna. Það er mikilvægt fyrir kennara að fá upplýsingar sem gætu auðveldað að fylgjast með líðan nemenda.

Við þökkum ykkur, kæru foreldrar/forráðamenn, kærlega fyrir þá jákvæðni gagnvart þeim takmörkunum sem þurfti að setja á skólastarfið í samkomubanninu og vonumst til þess að eðlilegt skólastarf sé komið til að vera.

Við hlökkum til að fá börnin ykkar í hefðbundið skólastarf á ný. 

Kær kveðja, stjórnendur Álftanesskóla.

 

Til baka
English
Hafðu samband