Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lestrarátak Ævars vísindamanns - samstarf heimila og skóla

21.03.2019
Lestrarátak Ævars vísindamanns - samstarf heimila og skóla

Í lestrarátaki Ævars vísindamanns 2019 var met slegið í lestri bóka. Samtals lásu íslenskir krakkar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Yngsta stig í Álftanesskóla fékk viðurkenningu fyrir hlutfallslega mestan lestur á sínu aldursstigi. Verðlaunin eru að Álftanesskóli kemur fyrir í síðustu bókinni í flokknum Bernskubrek Ævars vísindamanns. Bókin mun heita Óvænt endalok og kemur út í júní. 
Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, drógu eitt foreldri og fimm krakka úr lestrarmiðapottinum þann 20. mars 2019 við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafni, Grófinni. Þau heppnu sem dregin voru verða gerð að persónum í Óvæntum endalokum. Þar á meðal er foreldri í Álftanesskóla, móðir Jórunnar Mónu Stefánsdóttur í 1. bekk. Þá var að auki dreginn út einn nemandi í hverjum skóla sem tók þátt og var Óðinn Már Davíðsson í 2. bekk Álftanesskóla dreginn út og fær hann áritað eintak af bókinni þegar hún kemur út í júní. 

Hér í Álftanesskóla höfum við haft þann háttinn á að verðlauna einnig nemendur innan skólans. Guðrún Gísladóttir bókasafnsfræðingur dró út fjóra nemendur, einn í hverjum árgangi á yngsta stigi áður en miðarnir voru sendir til Ævars. Þessir nemendur fá viðurkenningu og bók eftir Ævar:

Björn B. Björnsson 1.G
Jakob Jarl Antonsson 2.R
Eydís Lilja Th. Guðmundsdóttir 3.SB
Tíbrá Magnúsdóttir 4.GÓ

Við viljum þakka nemendum og foreldrum fyrir þátttökuna, það er ómetanlegt hversu jákvætt og gefandi samstarf er við foreldra skólans hvað varðar lestur. Eftirfylgni heimila hefur gríðarleg áhrif á árangur og ástundum nemenda og það er ekki síður þeim að þakka hversu vel hefur tekist til.
Lestrarkennslan í skólanum er hluti af námsferlinu, lestrarþjálfun heimavið undir styrkri stjórn forráðamanna er mjög mikilvæg. Til þess að foreldrar geti staðið þétt við bakið á börnum sínum í lestrarnáminu þurfa þeir að vita til hvers er ætlast af þeim og því er fræðsla til foreldra mikilvægur þáttur í stefnu skólans. Við trúum því að vel upplýstir foreldrar og gott samstarf um lestrarnámið skili þessum mikla lestri. 

Nemendur í Álftanesskóla lásu 3.609 bækur. 
Foreldrar barna í Álftanesskóla lásu 204 bækur. 

Hér má sjá myndir af verðlaunahöfunum.

Til baka
English
Hafðu samband