Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nemendur í 4. bekk styrkja tvö góðgerðafélög um 60 þúsund krónur

05.02.2014
Nemendur í 4. bekk styrkja tvö góðgerðafélög um 60 þúsund krónur

Í gær afhentu nemendur í 4. bekk Álftanesskóla tveimur góðgerðafélögum samtals 60.000 krónur að gjöf. Upphæðin er afrakstur tombólu sem nemendur stóðu fyrir á Jóla- og góðgerðadeginum en Foreldrafélag Álftanesskóla stendur fyrir þeim degi.

Tombólan vakti mikla lukku meðal barna en nemendur í 1. - 4. bekk lögðu til dót á tombóluna. Árangur barnanna endurspeglar þann mikla áhuga sem yngsta kynslóðin sýndi tombólunni en aðsóknin var svo mikil að dæmi voru um að foreldrar hefðu skotist heim á meðan á tombólunni stóð til að sækja meira dót.  

Við hátíðlega athöfn var félögunum ABC barnahjálp og Unicef veittur þessi styrkur en það voru nemendurnir sjálfir sem völdu sér tvö góðgerðafélög til að styrkja og skiptist heildarupphæðin jafnt á milli þeirra. Það kom í hlut umsjónarmanna vikunnar í 4. bekk að afhenda styrkinn fyrir hönd bekkjarins því góðgerðafélagi sem varð fyrir valinu en 4. I valdi ABC barnahjálp og 4. M Unicef. 

Fulltrúar þessara góðgerðafélaga, Bryndís Rut Stefánsdóttir frá ABC barnahjálp og Hjördís Þórðardóttir frá Unicef, mættu og veittu gjöfinni viðtöku og lýstu þær mikilli ánægju með þetta frábæra framtak. 

Í heimsókn sinni sögðu þær börnunum hvað gjöf þeirra skipti miklu máli og að hún væri mikils virði í þeirra starfi. Hjördís frá Unicef sagði að fyrir 30.000 þúsund krónur myndu þau kaupa bóluefni fyrir börn til varnar mænusótt og ormalyf. Bryndís hjá ABC barnahjálp sagði styrkinn þeirra fara til skólabókakaupa fyrir börn í Úganda.

Að gefnu tilefni má geta þess að á síðasta ári völdu þáverandi nemendur í 4. bekk Fjölskylduhjálp Íslands og Styrktarfélag langveikra barna en þá söfnuðust 40 þúsund krónur. 

Tombóluverkefni 4. bekkjar er gott dæmi um einstaklega vel heppnað samstarf heimilis og skóla þar sem foreldrar, börn og kennarar koma með virkum og samstilltum hætti að verkefninu sem hefur það að markmiði að láta gott af sér leiða. Foreldrafélag Álftanesskóla og Álftanesskóli hlutu tilnefningu til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2013 fyrir þetta verkefni.   

Hér má sjá myndir frá afhendingunni.

Foreldrafélag Álftanesskóla

Til baka
English
Hafðu samband